Sagan um týnda Samsunginn!
Fyrir tveimur vikum síðan, nánar tiltekið mánudaginn 15.október, var ég stödd á ASB bókasafninu að læra fyrir próf. Ég var búin að vera þar allan daginn og lesa og var nánast ein eftir á bókasafninu þegar klukkan var farin að ganga 19. Allt í einu uppgötva ég að síminn minn var horfinn, ég fer á alla þá staði sem ég hafði verið á, ljósritunarherbergi, tölvusalinn, klósettið.... síminn var hvergi á þessum stöðum. Ég fer þá til stráksins sem var að vakta bókasafnið og spyr hann hvort að einhver hafi skilað til hans síma. Nei, því miður.. hann fór svo og athugaði hvort að einhver annar hafði fengið síma í hendurnar.... nei, því miður. Ég fékk þá að hringja í símann minn og vitið til - það var slökkt á honum... og það var rétt um hálftími síðan ég hafði séð hann síðast. Ég og bókasafnsstrákurinn drógum þá mjög eðlilega ályktun að honum hafði verið stolið - af hverju væri annars slökkt á honum.
Daginn eftir lá ég heima veik og einnig daginn þar á eftir - en ég var alltaf dugleg að hringja í símann til að athuga hvort að það væri búið að kveikja aftur á honum. Á fimmtudeginum mæti ég aftur í skólann og fer þá á bókasafnið til að athuga hvort að hann hafi fundist.... nei, því miður, kíktu niður í Information deskið í anddyrinu..... nei, því miður, enginn sími hefur komið til þeirra. Ok, þá var það formlegt, honum hefur verið stolið og hver í andsk... stelur síma á bókasafninu. Næstu viku tjékkaði ég aftur og enginn sími hafði komist til skila :( Einhver hafði sem sagt ákveðið að fá sér nýjan gylltan Samsung U-600...
Þar sem ég var búin að glata nýja, fallega símanum mínum þá fór ég að nota gamla símann hans Hrafnkels og var alveg að venjast honum þegar í gærmorgun, mánudaginn 29.okt, er haft samband við mig um að síminn hafði fundist. Hann hafði fundist á bókasafninu og væri nú hjá information deskinu í lobbyinu... og þau voru búin að hringja í alla sem höfðu ASB fyrir aftan nafnið sitt í símaskránni.
Sem sagt tveimur vikum síðar kemur síminn í leitirnar, hvar hann hefur verið þessar tvær síðustu vikur veit enginn.... kannski að sá sem hnuplaði honum hafi, eftir mikil erfiði, séð að hann gæti ekki notað símann þar sem hann er læstur fyrir kortið mitt, kannski að sá sem hnuplaði honum hafi fengið svaðalega sektarkennd við það að skoða símann og sjá sakleysislega andlit eigandans á skjánum, kannski að síminn hafi fundist á bókasafninu og sá sem tók við honum sett hann á einhvern fáránlegan stað þannig að hann fannst ekki aftur fyrr en í gær, kannski að tannálfurinn hafi fengið hann lánaðan til að spjalla við jólasveininn.....
Það er ómögulegt að segja til um hvað kom fyrir fallega símann minn en ég er búin að fá hann aftur og hann er ennþá SOOO PRETTYY!!